Schalke 04 tekur á móti Barcelona í fyrri viðureign liðanna í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Spænskir fjölmiðlar spá því að Eiður Smári Guðjohnsen verði í byrjunarliði Börsunga.
Marca stillir liðinu upp þannig að Eiður Smári verði vinstra megin í þriggja manna sóknarlínu. Ronaldinho hefur venjulega gegnt þeirri stöðu en hann er ekki í leikmannahópi Börsunga í dag. Hann hefur hingað til komið við sögu í öllum leikjum Barcelona í Meistaradeildinni á leiktíðinni.
Lionel Messi er enn frá vegna meiðsla og þá er Samuel Eto'o tæpur eftir að hann meiddist á kálfa gegn Real Betis á laugardaginn.
Marca reiknar reyndar með því að Eto'o verði í fremstu víglínu og Iniesta hægra megin. Samkvæmt því verða Thierry Henry, Bojan Krkic og Giovanni dos Santos á bekknum.
Marca spáir því að Yaya Toure, Rafael Marquez og Xavi verði á miðjunni en Marquez hefur átt við meiðsli að stríða að undanförnu. Deco fór ekki með til Þýskalands en gæti náð síðari leiknum í Barcelona.
Barcelona tapaði fyrir Real Betis um helgina, 3-2, eftir að hafa komist tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik. Þá var Iniesta á miðjunni ásamt Toure og Xavi og þeir Bojan, Eto'o og Henry í sókninni.
Eiður Smári kom inn á sem varmaður fyrir Toure seint í leiknum, rétt eins og í 4-1 sigurleiknum á Valladolid þar á undan.
Eiður Smári var síðast í byrjunarliði Barcelona í deildinni er liðið gerði 2-2 jafntefli við Almeria um miðjan mánuðinn en þá lék hann við hlið Xavi og Edmilson á miðjunni en þeir Bojan, Eto'o og Iniesta voru frammi.