Cristiano Ronaldo man lítið eftir markinu sem hann skoraði í 2-0 sigri Manchester United á Roma í fyrri viðureign liðanna í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.
Ronaldo skallaði knöttinn í netið eftir fyrirgjöf Paul Scholes af miklu harðfylgi en varð fyrir höfuðhöggi þannig að það varð að hlúa að honum í kjölfarið.
„Ef ég á að segja alveg eins og er þá man ég lítið eftir markinu," sagði hann. „Ég lenti í grasinu og fann fyrir sársauka. Ég naut ekki stundarinnar."
„En ég mun skoða þetta í sjónvarpinu. Aðrir hafa sagt mér að þetta var gott mark."
Þetta var 36. mark Ronaldo í öllum keppnum í vetur og það sjöunda í Meistaradeildinni. Hann er nú markahæstur í þeirri keppni, rétt eins og í ensku úrvalsdeildinni.