Körfubolti

Ingibjörg Elva setti stigamet í lokaúrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir, fyrirliði Íslandsmeistara Keflavíkur í Iceland Express deild kvenna, setti nýtt stigamet í lokaúrslitunum á móti KR.

Ingibjörg Elva skoraði 13,0 stig að meðaltali þrátt fyrir að koma af bekknum í öllum leikjunum þremur og þetta er hæsta meðalskor leikmanns af bekk í sextán ára sögu lokaúrslita kvenna 1993-2008.

Ingibjörg Elva bætti fjögurra ára gamalt met Svövu Óskar Stefánsdóttur sem skoraði 12,0 stig að meðaltali af bekknum í lokaúrslitunum árið 2004.

Auk stiganna 13,0 var Ingibjörg Elva með 4,7 fráköst, 2,3 stoðsendingar, 1,3 stolna bolta og 1,0 varið skot að meðaltali á þeim 25,7 mínútum sem hún spilaði í leik í úrslitaeinvíginu á móti KR sem Keflavík vann 3-0.

Framlag hennar var upp á 14,0 framlagsstig í leik eða 21,8 framlagsstig á hverjar 40 mínútur. Ingibjörg hitti úr 48,4 prósent skota sinna þar af 6 af 13 fyrir utan þriggja stiga línuna sem gerir 46,2 prósent þriggja stiga nýtingu.

Ingibjörg Elva skoraði samtals 39 stig á 77 mínútum í leikjunum þremur og jafnaði þar heildarstigamet af bekk í lokaúrslitum en KR-ingurinn Carrie Coffman skoraði einnig 39 stig í lokaúrslitunum 2002 en þurfti til þess fimm leiki. Carrie Coffmann var Bandaríkjamaður KR í þessu einvígi en kom inn af bekknum í öllum leikjunum.

Ingibjörg Elva tók við Íslandsbikarnum á sínu fyrsta ári sem fyrirliði Keflavíkur en hún var búin að fá silfurverðlun á Íslandsmótinu tvö fyrstu ár sín í Keflavík eða síðan að hún skipti úr Njarðvík þegar Meistaraflokkur kvenna var lagður þar niður haustið 2005.

Flest stig af bekk í leik í lokaúrslitum kvenna 1993-2008: (Lágmark 2 leikir spilaðir)

Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir (Keflavík, 2008) 13,0

Svava Ósk Stefánsdóttir (Keflavík, 2004) 12,0

Gréta María Grétarsdóttir (KR, 2000) 11,5

Helga Þorvaldsdóttir (KR, 1999) 9,0

Kristín Blöndal (Keflavík, 2003) 8,7

Kristín Blöndal (Keflavík, 1999) 8,5

Bryndís Guðmundsdóttir (Keflavík, 2007) 8,5

Georgia O Kristiansen (KR, 1996) 8,0

Carrie Coffman (KR, 2002) 7,8

Unnur Tara Jónsdóttir (Haukar, 2007) 7,8

Flest stig af bekk í lokaúrslitum kvenna 2008:

Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir, Keflavík 39

Margrét Kara Sturludóttir, Keflavík 15

Guðrún Ósk Ámundadóttir, KR 14

Rannveig Randversdóttir, Keflavík 8

Rakel Viggósdóttir, KR 5

Halldóra Andrésdóttir, Keflavík 5




Fleiri fréttir

Sjá meira


×