Sir Alex Ferguson segir að læknisrannsókn á varnarmanninum Rio Ferdinand hafi ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós og því gæti hugsast að hann verði jafnvel í byrjunarliði Manchester United í síðari leiknum gegn Roma í Meistaradeildinni annað kvöld.
"Skoðunin sem Rio fór í leiddi ekkert óeðlilegt í ljós og við vonum að við getum notað hann á miðvikudagskvöldið," sagði Ferguson.
Þeir Mikael Silvestre og Gary Neville verða líka í hópi United annað kvöld og hefur stjórinn látið í veðri vaka að annar þeirra gæti jafnvel fengið tækifæri í byrjunarliðinu.