Didier Drogba segir að bæði hann og John Terry verði klárir í slaginn gegn Manchester United í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Báðir meiddust í leik Chelsea gegn Bolton um helgina. Drogba meiddist á hné og Terry fór úr lið á olnboga. Drogba sagði í samtali við franska blaðið L'Equipe að meiðsli sín væru ekki alvarleg.
„Ég er búinn að tala við Terry. Hann mun spila í Moskvu. Það vill enginn missa af þessum risaleik," sagði Drogba. Hann sagði um sín meiðsli að hann hefði kælt hnéð strax og að hann muni geta æft í þessari viku.
Drogba sagði einnig að leikurinn gegn United væri svo mikilvægur að leikmenn sögðu hann vera mikilvægasta leikinn á sínum ferli.