Þótt fyrir löngu sé orðið uppselt á úrslitaleikinn í Meistaradeildinni í fótbolta sem fram fer annað kvöld í Moskvu er enn hægt að fá miða á svartamarkaðinum í borginni.
Hver miði þar kostar nú 2.000 dollara eða um 150.000 krónur en það er ríflega tífalt verð miðað við forsöluna á miðunum á leikinn.
Og ein vefsíða í Bretlandi auglýsir nú miða á allt að 5.000 dollara stykkið eða hátt í 400.000 krónur. Talið er að um 50.000 Bretar muni koma til Moskvu í dag og á morgun vegna leiksins. Þar af eru um 10.000 sem ekki eiga miða á leikinn.