Fótbolti

Sjálfsmark Riise tryggði Chelsea jafntefli

John Arne Riise átti ekki gott kvöld
John Arne Riise átti ekki gott kvöld NordcPhotos/GettyImages

Fyrri leik Liverpool og Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar lauk með 1-1 jafntefli á Anfield í kvöld. Dirk Kuyt kom Liverpool í 1-0 skömmu fyrir leikhlé, en varamaðurinn John Arne Riise jafnaði metin fyrir Chelsea með sjálfsmarki þegar rúmar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Chelsea byrjaði leikinn betur í kvöld en Liverpool var heilt yfir sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum. Fernando Torres fékk besta færið áður en markið kom, en lét Petr Cech verja frá sér í úrvalsfæri.

Hollendingurinn Dirk Kuyt sem kom Liverpool yfir tveimur mínútum fyrir leikhlé eftir varnarmistök hjá Chelsea og hefur hann því skorað í 16-liða, 8-liða og undanúrslitum keppninnar.

Liverpool var heldur með frumkvæðið í síðari hálfleiknum en Chelsea-menn beittu skyndisóknum, sem því miður enduðu flestar á því að framherjinn Didier Drogba lá grenjandi í vellinum eftir að varnarmenn Liverpool komu við hann. Hann fékk líka að heyra það frá stuðningsmönnum Liverpool sem bauluðu á hann við hvert tækifæri.

Fátt leit út fyrir annað en sigur heimamanna en þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar af uppbótartíma komst Salomon Kalou upp vinstri vænginn og gaf fyrir. Þar var varamaðurinn John Arne Riise mættur og skallaði boltann í eigið net og tryggði Chelsea gríðarlega mikilvægt mark á útivelli.

Síðari viðureign liðanna fer fram á Stamford Bridge í Lundúnum og þar nægir Chelsea nú markalaust jafntefli til að komast í úrslitaleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×