Atletico Madrid þarf að leika næsta heimaleik sinn í Meistaradeild Evrópu fyrir luktum dyrum og greiða 65 þúsund pund í sekt vegna ólæta stuðningsmanna félagsins á leik gegn Marseille í Meistaradeildinni í síðasta mánuði.
Þetta var niðurstaða Alþjóðlega áfrýjunardómstólsins um íþróttamál (CAS). Áður hafði Knattspyrnusamband Evrópu úrskurðað að Atletico þyrftu að leika tvo heimaleiki fyrir luktum dyrum og greiða 130 þúsund pund í sekt.
„Ég varð fyrir vonbrigðum með niðurstöðuna en það er ekkert sem við getum frekar gert í því," sagði Enrique Cerezo, forseti félagsins. Hann segir ekkert hæft í þeim ásökunum að Atletico hafi ekki staðið nægilega vel að öryggismálum á leiknum.