Arsene Wenger segir að sínir menn í Arsenal eigi enn góða möguleika á að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þrátt fyrir 1-0 tap fyrir Manchester United í kvöld.
Þetta var fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar en sá síðari fer fram á heimavelli Arsenal.
„Ég tel að Manchester United sé í betri stöðu. Þeir spiluðu mjög vel og voru mjög öflugir í upphafi leiksins," sagði Wenger.
„En það var mjög mikilvægt að við fengum ekki fleiri mörk á okkur og ég tel að við eigum góða möguleika á að snúa taflinu við í síðari leiknum. Við getum vel unnið síðari leikinn."
United var með nokkra yfirburði í leiknum, sér í lagi í fyrri hálfleik. Arsenal komst aldrei á skrið í sóknarleik sínum.
„Mér fannst að við náðum ekki að skapa nægilega mikið af færum í leiknum. En það þýðir lítið að ræða hvað okkur tókst ekki að gera í kvöld því við verðum að einbeita okkur að leiknum á þriðjudaginn."