Fótbolti

Benitez: Chelsea átti skilið að vinna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool.
Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, sagði Chelsea hafa verðskuldað sigurinn í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Chelsea vann leikinn, 3-1, eftir að Liverpool komst 1-0 yfir.

„Mér fannst við byrja virkilega vel í leiknum. En svo vorum við að spila illa og gáfum boltann mikið frá okkur. Við töpuðum fyrir góðu liði vegna þess að þeir spiluðu vel en við spiluðum undir getu," sagði Benitez við enska fjölmiðla eftir leik.

Liverpool fékk tvö mörk á sig úr föstum leikatriðum. „Stundum fær maður á sig mark þegar það er maður gegn manni. Þeir voru sterkir í loftinu og við fengum mörk á okkur."

Steven Gerrard var tekinn úr umferð í leiknum af Michael Essien en Benitez sagði að það hefði ekki haft úrslitaáhrif í leiknum.

„Við sáum í hvað stefndi strax á fyrstu mínútu og við vorum búnir að ræða það. En aðalmálið er að við spiluðum illa. Þeir skoruðu úr föstum leikatriðum en mörkin hefðu þess vegna getað komið úr opnu spili."

Hann viðurkennir að það verði erfitt að komast í undanúrslitin eftir úrslitin í kvöld en neitaði þó að gefast upp.

„Það er allt hægt í fótbolta. Við verðum að spila vel og skora þrjú mörk. Við verðum að reyna að spila mjög vel. Það verður erfitt vegna þess að Chelsea er með mjög gott lið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×