Brasilíumaðurinn Kaká snéri á sinn gamla heimavöll í kvöld í búningi Real Madrid. Hann lét nokkuð til sín taka og var duglegur að skjóta á landa sinn, Dida, sem þó sá við honum að þessu sinni.
„Ég er mjög glaður með þær móttökur sem ég fékk á San Siro. Það sýnir að fólk var ánægt með það sem ég gerði hér á sínum tíma. Núna ætla ég aftur á móti að gera það sama með Madrid," sagði Kaká sem var nokkuð ánægður með leikinn.
„Við höfum bætt okkar leik. Fyrri hálfleikur var frábær hjá okkur og nú getum við loksins talað um að við höfum tekið skref fram á við."