Körfubolti

Gerði nýja hárgreiðslan gæfumuninn fyrir Slavicu?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Slavica Dimovska (til vinstri)  og nýja hárgreiðslan hennar.
Slavica Dimovska (til vinstri) og nýja hárgreiðslan hennar. Mynd/Anton

Leikmenn beita oft ýmsum aðferðum til að koma sér í gang þegar illa gengur. Haukakonan Slavica Dimovska, besti leikmaður seinni hluta deildarkeppninnar, var búin að hitta illa í úrslitakeppninni en það breyttist í öðrum leik lokaúrslitanna.

Slavica mætti með nýja hárgreiðslu að amerískum stíl þar sem hún stíf-fléttaði allt hárið aftur. Það virkaði vel enda var hárið ekkert að flækjast fyrir henni í langskotunum.

Slavica hitti úr 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og var með 18 stig og 6 stoðsendingar í mikilvægum sigri en með honum náði Haukaliðið að jafna einvígið og vinna til baka heimavallarréttinn sem tapaðist í fyrsta leiknum.

Slavicu hafði gengið illa að hitta fyrir utan í leikjunum áður en hún skellti sér á þessa nýju hárgreiðslu. Hún hafði sem dæmi aðeins hitt úr 30 prósent þriggja stiga skota sinna í úrslitakeppninni og skoraði 13,8 stig að meðaltali í leik sem er talsvert undir meðaltölum hennar í vetur.

Þriðji leikur Hauka og KR í lokaúrslitum Iceland Express deildar kvenna fer fram á eftir á Ásvöllum og hefst klukkan 19.15. Slavica mætir örugglega aftur með amerísku flétturnar og lætur reyna á það hvort að það hafi verið nýja hárgreiðslan sem gerði gæfumuninn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×