Stjarnan vann KR í kvöld í baráttunni um titilinn meistarar meistaranna í DHL-höllinni í kvöld. Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, sagði eftir leik að Vesturbæjarliðið eigi enn töluvert í land.
„Við erum bara komnir mjög stutt á veg því miður. Við erum með algjörlega nýtt lið í höndunum og það sást í þessum leik að við eigum eftir að stilla saman strengi okkar," sagði Fannar.
„Við vorum mjög óskipulagðir í flestu sem við gerðum. Við höfum samt fínan leikmannakjarna og það mun koma í ljós þegar á líður. Við ætlum ekkert að vinna titilinn í október, hann vinnst ekki fyrr en á næsta ári."
En hvað var jákvætt við leik KR í kvöld? „Finnur (Magnússon) spilaði vel og það er mjög jákvætt. Brynjar (Þór Björnsson) spilaði eins og herforingi og ég veit að þetta verður hans tímabil. Darri var í smá veseni með villur í kvöld en þessir strákar eiga eftir að spila stóra rullu," sagði Fannar.
„Það er mjög skemmtilegt tímabil framundan. Stjarnan er með hörkulið, nánast óbreytt frá því í fyrra þegar þeir urðu bikarmeistarar. Það munar heilmiklu fyrir þá að halda kjarnanum. Þetta verður rosa barátta milli efstu sex held ég."