Graham Poll, fyrrum knattspyrnudómari, segir framkomu leikmanna Chelsea eftir leikinn gegn Barcelona hneykslanlega.
Leikmenn Chelsea hópuðust að hinum norska Tom Henning Øvrebø eftir leikinn í gær. Þeir töldu að dómgæsla hans hefði kostað þá sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
„Það þurfti að smygla honum úr landi í morgun í lögerglufylgd. Þetta er dómari í knattspyrnuleik. Það er hneyksli," sagði Poll og vísaði þá í orð Didier Drogba sem hann lét falla eftir leikinn í gær.
Poll sagði að framkoma leikmanna hafi virkað sem olía á eld fyrir stuðningsmenn félagsins. „Svona framkoma hjá leikmönnum getur valdið því að stuðningsmenn ákveði að taka málin í eigin hendur."
Hann sagði framkomu þeirra Drogba og Michael Ballack sérstaklega skammarlega. „Leikmenn þurfa að kunna að hafa stjórn á sér og sýna öðrum virðingu."