Roma hefur orðið fyrir enn einu áfallinu fyrir síðari leikinn gegn Arsenal í Meistaradeildinni í kvöld. Nú er ljóst að varnarmaðurinn sterki Philippe Mexes verður ekki með Roma í kvöld vegna veikinda.
Franski varnarmaðurinn er með 39 stiga hita og á því ekki möguleika á að mæta Arsenal í kvöld. Það kemur væntanlega í hlut hins óreynda Souleymane Diamoutene frá Malí að leysa hann af hólmi.
Mexes er því enn eitt nafnið á lista fjarverandi leikmanna hjá ítalska liðinu, sem þarf að vinna upp 1-0 forskot Arsenal frá því í fyrri leiknum í Lundúnum.
Leikmenn Roma sem ekki spila í kvöld vegna meiðsla eru Simone Perrotta, Marco Cassetti og Cicinho. Daniele De Rossi er í leikbanni og þá er Christian Panucci ekki í Evrópuhóp liðsins.
Þar fyrir utan eru miðjumennirnir David Pizarro og Alberto Aquilani tæpir vegna meiðsla og sá síðarnefndi æfði aðeins í fimm mínútur í gær.
Brasilíski miðvörðurinn Juan átti við einhver meiðsli að stríða í gær en ætti að ná leiknum og þá er fyrirliðinn Francesco Totti tæpur vegna hnémeiðsla.