Njarðvíkingar töpuðu sínum fyrsta leik í Iceland Express-deildinni þetta tímabilið þegar þeir biðu lægri hlut gegn Stjörnunni í Garðabæ. Stjarnan vann 87-75.
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann eins og reiknað var með. Justin Shouse átti skínandi leik fyrir heimamenn og þá var fyrirliðinn Fannar Helgason liðinu mikilvægur, þá sérstaklega í fyrri hálfleik.
Stjörnumenn höfðu sex stiga forystu eftir fyrsta leikhluta en staðan var 50-45 í hálfleik. Fannar var með átján stig og ellefu fráköst fyrir hlé.
Njarðvík byrjaði af krafti eftir hlé og var með eins stigs forystu fyrir síðasta leikhlutann. Þar aftur á móti tóku heimamenn í Stjörnunni völdin og spiluðu frábæra vörn. Stjarnan spilaði sem lið og vann góðan sigur.
Dýrmætur sigur fyrir Garðbæinga sem höfðu fyrir þennan leik tapað tveimur leikjum í röð eftir sigrana fimm í upphafi móts.
Stjarnan-Njarðvík 82-75 (50-45)
Stig Stjörnunnar: Fannar Freyr Helgason 21 (15 fráköst, 4 stoðsendingar), Justin Shouse 21 (11 fráköst), Jovan Zdravevski 20 (7 fráköst, 7 stoðsendingar), Magnús Helgason 10, Kjartan Kjartansson 3, Birkir Guðlaugsson 3, Ólafur Ingvason 3, Birgir Björn Pétursson 1.
Stig Njarðvíkur: Jóhann Árni Ólafsson 22, Magnús Þór Gunnarsson 12 (9 fráköst, 6 stoðsendingar), Friðrik Stefánsson 12 (14 fráköst), Guðmundur Jónsson 12, Páll Kristinsson 8, Rúnar Ingi Erlingsson 6, Hjörtur Hrafn Einarsson 3.