Körfubolti

KR leitar hefnda í kvöld

Jason Dourisseau átti ekki góðan dag í úrslitaleiknum
Jason Dourisseau átti ekki góðan dag í úrslitaleiknum

Átjánda umferð Iceland Express deildarinnar í körfubolta hefst í kvöld með þremur leikjum. Þar ber hæst leikur KR og Stjörnunnar í vesturbænum þar sem eigast við liðin sem spiluðu til úrslita í Subway-bikarnum um síðustu helgi.

KR-ingar, sem eru á toppi deildarinnar með 32 stig, vilja eflaust hefna fyrir tapið í úrslitaleiknum og gaman verður að sjá hvort sigurvíman verður runnin af lærisveinum Teits Örlygssonar. Stjarnan er í 6. sæti deildarinnar með 16 stig.

Á Akureyri eigast við heimamenn í Þór og Njarðvík, en gestirnir tefla væntanlega fram nýjum erlendum miðherja í leiknum. Njarðvík hefur 18 stig í 5. sæti deildarinnar en Þór er í næstneðsta sæti með aðeins 8 stig og þarf lífsnauðsynlega á sigri að halda.

Loks tekur botnlið Skallagríms á móti Tindastól í Borgarnesi. Tindastóll er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni við ÍR og Breiðablik. Liðin hafa öll 14 stig í 7.-9. sæti deildarinnar.

Einn leikur er í B-riðli Iceland Express deildar kvenna þar sem Valur tekur á móti Fjölni.

Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19:15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×