Fótbolti

Benitez óttast ekki um starfsöryggi sitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez, stjóri Liverpool.
Rafael Benitez, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Rafael Benitez, stjóri Liverpool, segist ekki óttast að hann verði rekinn úr starfi sínu hjá félaginu í kjölfar slæms gengi liðsins undir hans stjórn.

Liðið hefur tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum í öllum keppnum og þarf nauðsynlega á sigri að halda gegn Lyon í Meistaradeildinni í kvöld.

Benitez hefur til að mynda verið gagnrýndur fyrir stefnu sína í leikmannakaupum

en hann tók við Liverpool árið 2004.

„Leikmenn hafa verið að leggja mikla vinnu á sig og eru jákvæðir og ákveðnir. Þeir vita að jákvæð úrslit í þessum leik eru afar mikilvæg, bæði fyrir félagið og alla aðra," sagði Benitez í gær.

„Stuðningsmennirnir okkar hafa heldur ekki snúið bakinu við okkur. Þeir vita hver staða félagsins var þegar ég kom hingað á sínum tíma og hver staða þess er nú."

„Það er nauðsynlegt að líta á heildarmyndina og ég er viss um að þetta mun allt breytast hjá okkur á næstu vikum þegar leikmenn sem hafa verið meiddir hafa jafnað sig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×