Cristiano Ronaldo hefur sett stefnuna á að ná seinni leik Real Madrid gegn AC Milan í Meistaradeild Evrópu en liðin mætast á San Siro þann 3. nóvember næstkomandi.
Ronaldo meiddist á ökkla í leik með landsliði Portúgal fyrr í þessum mánuði og var því ekki með þegar liðin mættust í Madríd fyrr í vikunni. AC Milan vann leikinn, 3-2.
„Ég finn ekki lengur fyrir neinum sársauka í ökklanum og ég held að ég sé tilbúinn að spila á ný," sagði Ronaldo í samtali við spænska fjölmiðla.
Þetta þýðir að Ronaldo gæti einnig spilað með Portúgal gegn Bosníu í umspili um sæti á HM í næsta mánuði.
Hann hafði fyrir meiðslin skoraði níu mörk í sjö leikjum með Real Madrid í öllum leikjum á tímabilinu. Hann kom í sumar til Real frá Manchester United.