Fótbolti

Ferguson vanmetur ekki Porto

Nordic Photos/Getty Images

Sir Alex Ferguson varar fólk við að vanmeta Porto, andstæðinga Manchester United í Meistaradeild Evrópu. Fyrri leikur liðanna er á Old Trafford í kvöld.

Porto sló Atletico Madrid út úr keppninni í síðustu umferð og þó Ferguson ætli að blása til sóknar í kvöld, segir hann verkefnið erfitt.

"Það væri heimska að ætla að Porto sé auðveldur mótherji," sagði Ferguson, sem leiðir sína menn til leiks aðeins rúmum tveimur sólarhringum eftir ævintýralegan sigur þeirra á Aston Villa á sunnudag.

"Lið eins og Porto, sem vinna meistaratitla í heimalandinu með reglulegu millibili, munu alltaf leika með gott sjálfstraust. Liðið er með marga Suður-Ameríkumenn í sínum röðum og er líkamlega sterkt. Það að liðið skuli hafa slegið Atletico út úr keppninni segir okkur að það kemur ekki til greina að vanmeta þetta lið. Við munum gefa allt í botn til að reyna að ná þeim úrslitum sem við óskum eftir," sagði Ferguson.

Hann horfir spenntur á möguleikann á að mæta Barcelona í úrslitaleiknum ef allt gengur hans mönnum í haginn.

"Vonandi mætum við Barcelona í úrslitum. Það yrði stórkostlegur leikur. Ég vona að það verði þrjú ensk lið í undanúrslitunum, en það yrði staða sem gæfi góða mynd af styrkleika ensku deildarinnar. Ég er samt ánægður að sleppa við að mæta Barcelona fyrr en í úrslitum," sagði Skotinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×