Stjarnan er meistari meistaranna í karlaflokki eftir sigur á KR 80-89 í DHL-höllinni í kvöld. Garðbæingar urðu bikarmeistarar á síðustu leiktíð og lögðu Íslandsmeistarana í þessum árlega leik en hann var fyrirtaks skemmtun fyrir áhorfendur.
Íslandsmeistarar KR fóru illa af stað í leiknum og Garðabæjarliðið komst í 17-2. Páll Kolbeinsson, þjálfari KR, brá á það ráð að taka leikhlé og eftir það fóru heimamenn að spila betur.
Garðabæjarliðið hafði þó sjö stiga forystu í hálfleik 48-41. KR skoraði fyrstu sjö stigin í seinni hálfleiknum og jafnaði metin áður en liðið tók síðan forystu í fyrsta sinn í leiknum 51-50.
Mikil spenna var komin í leikinn og hann hraður og skemmtilegur. Fyrir þriðja leikhlutann hafði KR þriggja stiga forystu 64-61. Í lokaleikhlutanum voru Stjörnumenn hinsvegar betri og unnu á endanum góðan sigur í skemmtilegum leik sem lofar góðu fyrir tímabilið. Hart var barist, mikill hiti í mönnum í lokin og ljóst að þessi leikur er ekki bara einhver æfingaleikur.
Lið KR er langt frá því það sama og varð Íslandsmeistari síðasta vetur. Nánast allt byrjunarliðið er horfið á braut og nýr þjálfari tekinn við. Þó liðið sé alls ekki eins sterkt þetta tímabilið hefur það marga hæfileikaríka leikmenn.
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, er með mjög skemmtilegt lið í höndunum og spennandi verður að sjá hvernig liðinu vegnar í vetur.
Frá árinu 1995 hefur þessi leikur verið góðgerðarleikur og rennur allur aðgangseyrir til ákveðins góðgerðarfélags. Allir sem að leikjunum koma gefa sína vinnu til styrktar málefninu hverju sinni. Í ár er það Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna sem fær allt það fé sem safnast í kringum leikina.
KR - Stjarnan 80-89
Stigahæstir hjá KR:
Brynjar Björnsson 29
Tommy Johnson 13
Finnur Magnússon 11
Semaj Inge 10
Stigahæstir hjá Stjörnunni:
Jovan Zdravevski 33
Fannar Freyr Helgason 22
Justin Shouse 15