Fótbolti

Guardiola: Pressa United kom mér á óvart

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guardiola ærðist af fögnuði eftir leikinn.
Guardiola ærðist af fögnuði eftir leikinn. Nordic Photos/Getty Images

Pep Guardiola hefur gert ótrúlega hluti með Barcelona-liðið á sinni fyrstu leiktíð. Það hefur fyrst spænskra félaga tekist að vinna stóru titlana þrjá - Meistaradeildina, spænsku deildina og spænska Konungsbikarinn.

Guardiola er aðeins á sínu fyrsta ári með liðið og tók við í erfiðri stöðu enda hafði liðið ekki unnið titil í tvö ár. Hann hefur heldur betur skilað sínu og er yngsti þjálfarinn sem vinnur Meistaradeildina.

Hann er þess utan sjötti maðurinn sem vinnur þessa keppni bæði sem leikmaður og þjálfari.

„Það er sérstakt að vinna bæði sem leikmaður og þjálfari. Þegar ég vann þessa keppni sem leikmaður var ég ungur og það var fyrsti Meistaradeildartitill félagsins. Að ná svo þessari þrennu er auðvitað einstakt," sagði Guardiola.

„Ég átti ekki von á því að United myndi pressa okkur svona hátt í byrjun. Þeir sköpuðu mikinn usla en markið frá Eto´o var frábært fyrir okkur. Eftir það héldum við boltanum innan liðsins, reyndum að skora annað mark sem við og gerðum," sagði þjálfarinn kátur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×