Fótbolti

Ferguson vill komast í sögubækurnar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ferguson var hress þegar United æfði á Ólympíuleikvanginum í Róm í dag.
Ferguson var hress þegar United æfði á Ólympíuleikvanginum í Róm í dag. Nordic Photos/Getty Images

Sir Alex Ferguson vill að lið sitt skrifi nafn sitt gylltu letri í sögubækurnar annað kvöld. Þá getur Man. Utd orðið fyrsta liðið til þess að verja titil sinn í Meistaradeildinni.

„Þetta er tækifæri fyrir okkur til þess að komast á stall með bestu liðum Evrópu sem menn tala um enn í dag. Ef menn líta til baka þá voru það lið eins og Ajax, AC Milan og FC Bayern sem vörðu bikarinn," sagði Ferguson en síðasta liðið til að gera það var AC Milan leiktíðina 1989-90.

Ekkert lið hefur aftur á móti varið bikarinn síðan keppninni var breytt úr Evrópukeppni Meistarahafa í Meistaradeildina.

Real Madrid vann keppnina fimm ár í röð um miðja síðustu öld og Ajax var geysilega öflugt í kringum 1970. Ferguson vill að United-lið sitt sé sett á sama stall og þessi eftirminnilegu lið.

„Það hafa verið mörg óheppin lið í fótboltanum en þegar maður lítur á þau lið sem telja sig til stórvelda þá verða þau að hafa Evrópubikarana til þess að styðja sitt mál. Þannig gengur þetta fyrir sig. Lið eins og Man. Utd og Barcelona verða að vinna þennan bikar til þess að hljóta sömu virðingu," sagði Ferguson.

„Það er óvenjulegt að ekkert lið hafi varið titilinn síðan keppnin breyttist í Meistaradeildina en við erum góðir í að vera fyrstir til að gera hlutina og þetta er okkar tækifæri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×