

Tillaga Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um að stjórnarskrárfrumvarpið yrði sett aftur fyrir mikilvægari mál á dagskrá Alþingis var felld í dag. Þorgerður taldi brýnt að ræða frumvarp Össur Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, um heimild til samninga um fyrirhugað álver í Helguvík. 31 þingmenn voru andsnúnir tillögu Þorgerðar en 20 greiddu atkvæði með henni. 12 voru fjarstaddir.
Illugi Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði það algjörlega gjörsamlega óskiljanlegt hvernig ríkisstjórnin þráast við. Þessi orð lét Illugi falla í umræðum um fundarstjórn forseta sem nú fer fram á Alþingi. Hart er tekist á og vilja sjálfstæðismenn fresta umræðum um stjórnarskrá og afgreiða mál er snerta fyrirtæki og heimili í landinu eins og þeir orða það.