John Terry segir viðbrögð Didier Drogba eftir leik Chelsea og Barcelona í gær vel skiljanleg í ljósi aðstæðna.
Liðin gerðu 1-1 jafntefli í Lundúnum í gær sem þýddi að Börsungar leika til úrslita í Meistaradeildinni þar sem liðið skoraði fleiri mörk á útivelli.
Chelsea komst snemma yfir með marki Michael Essien en Andres Iniesta jafnaði metin fyrir Börsunga í uppbótartíma. Í millitíðinni vildi Chelsea fá vítaspyrnu dæmda minnst fjórum sinnum en dómarinn, Norðmaðurinn Tom Henning Øvrebø, lét ekki segjast.
Eftir að leiknum lauk hópuðust leikmenn Chelsea í kringum dómarann og Drogba gekk hvað lengst. Hann lét Øvrebø heyra það, sneri sér svo að myndavélinni og sagði framgöngu hans hneyksli.
Svo gæti farið að Knattspyrnusamband Evrópu refsi Drogba fyrir framkomu sína en John Terry, fyrirliði Chelsea, sagði hana skiljanlega.
„Ég styð Didier heilshugar," sagði Terry. „Maðurinn vill vinna. Hann spilaði af mikilli ástríðu í leiknum og tilfinningarnar voru svo miklar eftir leikinn."
„Fólk er að segja að við hefðum ekki átt að bregðast við eins og við gerðpum en sex ákvarðanir dómarans voru okkur í óhag. Allt þetta átti sér stað fyrir framan 40 þúsund áhorfendur."
Terry gagnrýndi svo Knattspyrnusamband Evrópu fyrir að setja Øvrebø á svona leik. „Við fengum dómara sem hefur dæmt í tíu leikjum í Meistaradeildinni á hans ferli. Mér finnst það ekki nógu mikið til að hann fái að dæma í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á Stamford Bridge."
Hið rétta er að Øvrebø hefur dæmt 28 Meistaradeildarleiki á ferlinum en það fyrsta dæmdi hann árið 1999.
Frank Lampard og Michael Ballack sögðu einnig í viðtölum við fjölmiðla eftir leik að dómgæslan hefði verið skelfileg og Guus Hiddink, stjóri liðsins, skildi vel viðbrögð leikmanna eftir leikinn.