Hollendingurinn Mark Van Bommel hefur mikið álit á sínum gömlu félögum í Barcelona. Hann kemur aftur á sinn gamla heimavöll á miðvikudag með FC Bayern.
Van Bommel lék aðeins eina leiktíð með Barca áður en hann fór yfir til Þýskalands.
„Við erum að fara að spila gegn besta liði heims í dag og það á þeirra heimavelli. Það er klárt mál að Barca er líklegast til þess að vinna þessa keppni enda í frábæru formi og með bestu leikmenn heims," sagði Van Bommel.
„Rétt eins og margir þá trúi ég því að Barcelona vinni þessa keppni komist liðið í gegn um okkur. Að sama skapi ef við vinnum þá erum við að senda út skýr skilaboð til heimsins. Þá mun fólk sjá að FC Bayern er komið aftur."