Körfubolti

Jóhannes þjálfari KR: Það eru tveir leikir eftir af tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhannes Árnason, þjálfari KR.
Jóhannes Árnason, þjálfari KR. Mynd/Abton

Jóhannes Árnason, þjálfari KR, er sannfærður um að það séu tveir leikir eftir að lokaúrslitum Iceland Express deildar kvenna. Haukar eru aðeins einum sigri á Íslandsmeistaratitlinum eftir dramatískan sigur í framlengingu í kvöld.

„Við vorum að spila á móti frábæru liði og þær sýndu í þessum leik breiddina sem er í liðinu með því að fá stig úr öllum áttum. Það er alltaf erfitt að spila á móti svoleiðis liði," sagði Jóhannes Árnason, þjálfari KR eftir tapaði í framlengingu á móti Haukum í kvöld.

„Stelpurnar mínar voru að spila vel og við vorum inn í þessu allan tímann. Við hefðum þurft að skora eina körfu í viðbót til þess að vinna Haukana í kvöld. Við verðum bara að vona að heppnin verði með okkur næst," sagði Jóhannes.

„Við vorum að gera svolítið mikið af klaufalegum mistökum en þetta er annar leikurinn í röð sem við gerum þau þannig að það er spurning hvort haukarnir séu að framkalla þau hjá okkur. Það er rosalega erfitt að vinna leiki þegar þú nýtir ekki bestu færin sem er möguleiki á að fá í körfubolta.

„Það eru allir grátandi í hjartanu inn í klefa. Við berum okkur vel og þegar menn ná að slökkva og kveikja á tölvunni þá endurræsir hún sig og það er hægt að byrja upp á nýtt," sagði Jóhannes spekingslegur en hann vonast eftir að vera þá búinn að endurheimta Helgu Einarsdóttur sem gat ekki spilað vegna meiðsla í gær.

„Það munar svakalega um Helgu. Þetta er einn okkar traustasti leikmaður. Hún gerir aldrei mistök og við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur að gera hana klára fyrir næsta leik. Hún er hörkutól þannig að ég á ekki von á öðru en að hún verði klár," sagði Jóhannes og bætti við.

„Við lítum svo að á að það séu tveir leikir og fjórar æfingar eftir á þessu tímabili. Við ætlum bara að njóta þess."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×