Iceland Express-deild karla hófst í kvöld með þrem leikjum. Er óhætt að segja að úrslit kvöldsins hafi verið eftir bókinni.
Stórleikur kvöldsins var á hinum nýja heimavelli ÍR-inga, íþróttahúsi Kennaraháskólans.
Þar kom Njarðvík í heimsókn og vann öruggan og sanngjarnan sigur, 70-88. Úrslitin réðust í 3. leikhluta þar sem ÍR skoraði ekki körfu utan af velli fyrr en um 2 mínútur voru eftir af leikhlutanum.
Nánar verður fjallað um þann leik síðar í kvöld.
Í Stykkishólmi vann Snæfell öruggan sigur á Hamri, 90-58, og Íslandsmeistarar KR hófu titilvörnina á Selfossi gegn FSu. Meistararnir lentu ekki í neinum vandræðum og unnu örugglega, 63-98.