Keflavíkurkonur létu ekki slæma byrjun koma í veg fyrir að þær héldu sigurgöngu sinni áfram í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Keflavík vann 72-53 sigur á Hamar en þetta var fjórði sigurleikur liðsins í röð.
Keflavík skoraði bara 14 stig fyrstu 17 mínútur leiksins og klikkaði á 19 af fyrstu 22 skotunum sínum. Hamar komst á meðan í 24-12 og var síðan 26-22 yfir í hálfleik.
Frábær sprettur í þriðja leikhluta breytti hinsvegar öllu, Keflavíkurliðið skoraði 14 stig í röð og breytti stöðunni úr 26-35 í 40-35 á rúmum fimm mínútum.
Keflavíkurliðið leit ekki til baka eftir það og vann seinni hálfleikinn á endanum með 23 stigum, 50-27. Keflavík náði þó ekki að vinna upp 20 stiga tap liðsins í Hveragerði og Hamar er því enn með betri innbyrðisstöðu verði liðin jöfn að stigum í töflunni.
Bryndís Guðmundsdóttir átti enn einn stórleikinn með Keflavíkurliðinu en liðið hefur unnið 4 af 5 leikjum sínum síðan að hún kom inn í liðið. Bryndís var með 23 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar í kvöld.
Keflavík-Hamar 72-53 (22-26)
Stig Keflavíkur: Bryndís Guðmundsdóttir 23, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 15, Kristi Smith 13, Marín Rós Karlsdóttir 7, Svava Ósk Stefánsdóttir 6, Rannveig Randversdóttir 4, Hrönn Þorgrímsdóttir 2, Sigrún Albertsdóttir 2.
Stig Hamars: Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 19, Koren Schram 14, Kristrún Sigurjónsdóttir 11, Fanney Lind Guðmundsdóttir 4, Guðbjörg Sverrisdóttir 2, Jenný Harðardóttir 2, Hafrún Hálfdánardóttir 1.
Keflavíkurkonur snéru leiknum við í seinni hálfleik
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
