Njarðvíkurkonur komust í kvöld af botni Iceland Express deildar kvenna með 22 stiga heimasigri á Snæfelli, 74-52. Njarðvík fór þar með upp um þrjú sæti í það fimmta þar sem liðið er með betri innbyrðisárangur á móti Haukum og Snæfelli.
Njarðvíkurliðið hafði mikla yfirburði allan tímann, var 26-15 yfir eftir fyrsta leikhluta og komið með 20 stiga forskot í hálfeik, 45-25.
Snæfell náði því ekki að fylgja eftir góðum sigri á Val í síðasta leik og tapaði auk þess innbyrðisviðureignunum á móti Njarðvík en Snæfell vann leik liðanna í Hólminum með 6 stigum.
Shantrell Moss átti mjög flottan leik með Njarðvíkurliðinu en hún var með 30 stig, 15 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Ólöf Helgadóttir skoraði 15 stig og stal 8 boltum af Snæfellsstúlkum.
Kristen Green var með 29 stig fyrir Snæfell og Unnur Ásgeirsdóttir bætti við 10 stigum.
