Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Oz, hefur tekið sæti í stjórn kanadíska tæknifyrirtækisins Airborne Technology Ventures ásamt því að fjárfesta í því fyrir hálfa milljón Bandaríkjadala, jafnvirði rúmra 65 milljóna króna að núvirði.
Oz vann lengi vel að þróun ýmissa tæknilausna fyrir farsíma og var staðsett í Kanada þegar finnski farsímarisinn Nokia keypti fyrirtækið í fyrrahaust.
Fyrirtækið er móðurfyrirtæki Airborne Mobile, sem var stofnað fyrir áratug og gerir farsímanotendum kleift að nálgast ýmis konar afþreyingarefni í símum sínum. Skrifstofur þess eru í Montreal í Kanada og eru starfsmenn 52.
Haft er eftir Skúla í tilkynningu frá fyrirtækinu að hann telji fyrirtækið afar spennandi fjárfestingarkost í þeirri tæknibylgju sem sé framundan í farsímageiranum.
Ekki náðist í Skúla þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í gær og fyrradag. - jab