Nick Bradford varð annað árið í röð að sætta sig við að tapa í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Í fyrra tapaði hann með Grindavík aðeins einu stigi á móti KR en í kvöld steinlágu hann og félagar hans í Keflavík fyrir Snæfelli.
„Við völdum slæman dag til þess að spila svona hrikalega illa. Þeir tóku okkur í gegn strax frá fyrstu sókn," sagði Keflvíkingurinn Nick Bradford eftir 36 stiga tap á heimvelli á móti Snæfelli í hreinum úrslitaleik um titilinn.
„Við vorum ekki að spila neina vörn og ég held að þeir hafi skorað 30 stig á fyrstu fimm mínútunum. Þeir voru að hitta úr galopnum skotum og keyrandi upp á körfu án þess að einhver í okkar liði gerði eitt eða neitt til að stoppa það," sagði Nick.
„Það var bara einn maður í okkar liði sem mætti til spila þennan leik og það var Ule. Allir aðrir mættu ekki til leiks í kvöld," sagði Nick en Uruele Igbavboa skoraði 23 stig í kvöld þrettán stigum meira en næsti maður í liðinu
„Það er erfitt að elta allan leikinn og þá sérstaklega í svona stórum leik og á móti svona líkamlega sterku liði eins og Snæfell. Þeir áttu þennan sigur skilinn og ég óska þeim til hamingju. Þetta er fyrsti stóri titilinn í sögu klúbbsins og þeir eiga að njóta þess," sagði Nick að lokum.
