Knattspyrnustjórinn Leonardo hjá AC Milan hefur blandað sér inn í sálfræðistríðið á milli knattspyrnustjóranna Carlo Ancelotti hjá Chelsea og José Mourinho hjá Inter fyrir fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld.
Leonardo kveðst vona að Ancelotti gangi vel í leiknum. „Ég mun styðja Ancelotti annað kvöld. Ég tók við AC Milan af honum og er í góðu sambandi við hann og mun því styðja við bakið á honum en ég hef ekkert persónulega á móti Inter.
Yfirleitt vonar maður alltaf að ítölsk lið komist áfram í Evrópukeppninni," segir Leonardo í viðtali við ítalska fjölmiðla í dag.