„Ég er ekki öruggur inni en þetta verður mjög tæpt. Það munar um hvert atkvæði," sagði Einar Skúlason, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, í viðtali við Sólveigu Bergman og Þorgeir Ástvaldsson á Bylgjunni í morgun.
Einar tók sér dágóðan tíma í kjörklefanum áður en hann ræddi við fjölmiðlamenn.
Sjálfur er Einar bjartsýnn á að Framsóknarmenn komi honum inn í borgarstjórn en miðað við síðustu kannanir þá mælist Einar ekki inn í borgarstjórn.
„Framsóknarmenn eru hlédrægir þegar kemur að könnunum en ég vona að þeir bregðist ekki þegar á reynir," segir Einar og bætir við að Framsókn er öfgalaus flokkur og gott mótvægi við vinstri og hægri.
En Einar er ekki sáttur við fjölmiðla. Hann segir þá hafa sýnt áhugaleysi í aðdraganda kosninganna.
„Og ég skil það að það hefur verið eldgos og fleira en mér finnst að fjölmiðlar hefðu mátt sinna málefnaumræðunni betur," segir Einar sem þykist finna á sér að kjósendur séu ekki mjög upplýstir um stefnuskrár flokkanna.
En þó að á móti blási þá er Einar jákvæður. „Ég hvet fólk til þess að kjósa sem fyrst. Við vinnum Eurovision og svo fer ég inn í borgarstjórn," segir Einar að lokum.