Fótbolti

Mourinho: Kannski á ég bara vin í eldstöðinni í Eyjafjallajökli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og Wesley Sneijder fagna þriðja marki liðsins í gær.
Jose Mourinho og Wesley Sneijder fagna þriðja marki liðsins í gær. Mynd/AP

Jose Mourinho, þjálfari Inter, kann betur en margur að svara fyrir sig og þar skín oft í skemmtilegan húmor portúgalska þjálfarans. Mourinho hlustaði ekki mikið á kvartanir Barcelona-manna yfir langa rútuferðlaginu til Mílanó en Inter vann eins og kunnugt er 3-1 sigur á Barcelona í Meistaradeildinni í gær.

„Hver veit, kannski þurfum við að ferðast með rútu til Barcelona á næsta tímabili. Ég veit ekki betur en að Liverpool þurfi að fara til Madrid, Fulham þurfti að komast til Hambourg og Lyon þurfti að fara til Munchen. Þetta er eitthvað sem við getum ekki stjórnað því þetta er bara náttúran að verki," sagði Jose Mourinho í viðtalið við Sky Sports eftir leikinn.

„Kannski á ég bara vin í eldfjallinu í Eyjafjallajökli og rútuferðina þeirra er því mér að kenna," sagði Mourinho og það var ekki langt í brosið.

Barcelona-menn kvörtuðu einnig yfir því að dómarinn hafi verið portúgalskur og að völlurinn hafi ekki verið vökvaður fyrir leik. Þegar allt kom til alls þá var Inter bara betra fótboltalið á San Siro í gær og því geta Inter-menn þakkað fótboltaþekkingu eins manns að nafni Jose Mourinho.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×