Rússinn Andrei Arshavin verður ekki með Arsenal á morgun þegar liðið spilar fyrri leikinn sinn við Porto í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Leikurinn fer fram á Estadio do Dragao, heimavelli Porto.
Arshavin meiddist aftan í læri í sigurleiknum á móti Liverpool í síðustu viku.
„Ef allt gengur vel þá ætti ég að geta náð næsta leiknum okkar í úrvalsdeildinni sem er á móti Sunderland," sagði Andrei Arshavin á heimasíðu Arsenal.
Miðvörðurinn marksækni Thomas Vermaelen ætlar hinsvegar að pína sig í gegnum sársaukann og spila leikinn á móti Porto.
Belginn er enn að glíma við meiðsli sem hann varð fyrir á móti Aston Villa þegar hann fékk beinmar. Um tíma var óttast um að hann hefði brotnað en svo var þó ekki og hann spilaði næsta leik.