utanríkisverslun Viktor F. Janúkóvitsj, nýkjörinn forseti Úkraínu, gerði stuttan stans á Keflavíkurflugvelli nýlega er hann var á heimleið frá leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York.
Séríslenskt góðgæti virðist vel kynnt eystra því forsetinn gerði út menn til að hamstra íslenska matvöru og koma um borð í forsetavélina á meðan eldsneytistankarnir voru fylltir.
Alls keyptu sendisveinar hans um 100 kíló af matvöru. Þar bar mikið á saltsíld sem fengin var frá Kjartani í Sægreifanum við Geirsgötu og humri, ferskum og reyktum þorski, ýsu og lúðuflökum frá Fiskiprinsinum í Hlíðarsmára í Kópavogi. Eitthvað af Ora hunangssíld og hákarlalýsi fylgdi með. Forsetinn keypti jafnframt lambalæri og hrygg af nýslátruðu.
Utanríkisráðherra Úkraínu, Kostyantyn Grystsjenko, var hér á landi nýlega ásamt sendinefnd til að undirrita fríverslunarsamning milli EFTA og Úkraínu. Mun ráðherrann hafa hrifist mjög af íslensku smjöri og voru allnokkur kíló í farteski forsetans sérstaklega merkt Grystsjenko, samkvæmt upplýsingum blaðsins. - shá