Kirk Broadfoot var skiljanlega afar brugðið þegar að Antonio Valencia ökklabrotnaði eftir samstuð þeirra í leik Manchester United og Glasgow Rangers í Meistaradeild Evrópu í gær.
Valencia fór þar að auki úr lið en meiðslin voru afar ljót. Hann gekkst undir aðgerð á ökklann nú síðdegis.
„Ég man bara eftir því að ég renndi mér að honum, stóð upp og sá beinið standa út," sagði Broadfoot. „Ég reyndi bara að kalla á sjúkraþjálfarann og fá hann til að koma eins fljótt og mögulegt var."
„Maður hefur séð svona lagað í sjónvarpinu og það er ekki fallegt - hvað þá í návígi. Valencia er leikmaður í hæsta gæðaflokki og ég vil sjá hann spila í hverri viku. Vonandi jafnar hann sig fljótt og vel."
Broadfoot greindi einnig frá því að Wayne Rooney hafi reynt að róa sig og sagt að tæklingin hafi verið „sanngjörn".