Innlent

Krían í miklum erfiðleikum

kría Ein af þeim mörgu sjófuglum sem byggja fæði sitt á sandsílum.
kría Ein af þeim mörgu sjófuglum sem byggja fæði sitt á sandsílum.

Sandsílastofninn á Íslandi hefur minnkað á síðustu árum, meðan annars vegna hlýnunar sjávar. Nýliðun sandsíla brást á árunum 2005 og 2006 og hefur það haft gífurleg áhrif á margar sjófuglstegundir við strendur landsins.

Krían er ein þeirra fuglategunda sem byggir afkomu sína á sandsílum og Jón Einar Jónsson, hjá Háskólasetri Snæfellsness, segir að stofninum hafi farið hrakandi frá árinu 2004. Hann sér ekki breytingu til hins betra nú í ár.

„Þær eru að verpa einu til tveimur eggjum í hreiður og hafa seinkað varptímanum um 5 eða 6 daga,“ segir Einar. „Hlýnun hafsins og breytingar á seltustigi fyrir sunnan landið gera það meðal annars að verkum,“.

Erpur Snær Hansen, hjá Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum, segir að varpstofn lundans, sem byggir fæði sitt nær eingöngu á sandsílunum, hafi einnig minnkað töluvert á síðustu árum.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við sjáum enga nýliðun í stofninum,“ segir Erpur. „En við erum vongóð því varpið var 10 dögum fyrr í ár.“

Hafró er að leggja í rannsóknir á sandsílum í sumar og eru niðurstöður væntanlegar með haustinu.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×