Fótbolti

Hulk og Falcao gætu orðið erfiðir fyrir Arsenal í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hulk og Falcao eru öflugir saman í framlínu Porto.
Hulk og Falcao eru öflugir saman í framlínu Porto. Mynd/AFP
Suður-ameríska framherjaparið hjá Porto, Hulk og Falcao, munu örugglega láta reyna á vængbrotna Arsenal-vörnina í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liðin mætast á Estadio do Dragao í Porto klukkan 19.45 í kvöld.

Arsenal verður án tveggja fastamanna í vörninni í þessum leik, markvörðurinn Manuel Almunia og miðvörðurinn Williams Gallas eru báðir meiddir og því munu Lukasz Fabianski og Sol Campbell byrja í þessum leik. Miðvörðurinn Thomas Vermaelen er einnig að spila í gegnum meiðsli og því gæti vörnin verið spurningamerki í þessum leik.

Varnarlínan hjá Arsenal fær alvöru próf í leiknum í kvöld því framherjaparið Hulk og Falcao hafa verið í flottu formi í Meistaradeildinni í vetur og eru báðir með 3 mörk og 1 stoðsendingu í 6 leikjum liðsins.

Radamel Falcao García Zárate eða Falcao er 24 ára og 177 sentímetra framherji sem er frá Kólumbíu. Hann lék með River Plate í Argentínu áður en hann kom til Porto.

Givanildo Vieira de Souza eða Hulk er 23 ára og 180 sentímetra framherja sem er frá Brasilíu. Hann kom til Porto frá Japan.

Falcao hefur gert enn betur í portúgölsku deildinni heima fyrir þar sem að hann hefur skorað 14 mörk í aðeins 18 leikjum og er því alls með 20 mörk í 26 mótsleikjum á sínu fyrsta tímabili með Porto.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×