Körfubolti

Ágúst: Við þurfum að laga varnarleikinn hjá okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Hamarskonur eru komnar upp að vegg eftiir 101-103 tap fyrir Keflavík á heimavelli  í þriðja leik liðanna í undanúrslitaeinvígi  Iceland Express-deildar kvenna sem fram fór í Hveragerði. Keflavík er þar með 2-1 yfir og kemst í lokaúrslitin með næsta sigri.

 

„Við þurfum að laga varnarleikinn hjá okkur," sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars en Kristi Smith tryggði Keflavík sigurinn með þriggja stiga körfu fjórum sekúndum fyrir leikslok.

 

„Kristi setti niður svakalegan þrist, tvo metra fyrir utan þriggja stiga línuna og með mann í sér. Það er lítið hægt að gera í því. Leikurinn vinnst ekki eða tapast þarna á síðustu sekúndunum. Varnarleikurinn okkar er ekki nægilega góður og þær eru að fá of mikið af opnum skotum," sagði Ágúst.

Hamarsliðið treystir mikið á Juliu Demirer sem var með 39 stig og 13 fráköst í leiknum í kvöld.

 

„Við leggjum upp með það að boltinn fari inn á Juliu, að hún sé tví- eða þrídekkuð og að við séum þá að fá opin skot. Það er að gerast því við erum að fá 25 þriggja stiga skot og af þeim er örugglega 20 opin. Ef maður getur ekki sett þau niður þá getur verið erfitt að vinna," segir Ágúst en nú er ekkert nema sigur í Keflavík í næsta leik sem kemur í veg fyrir sumarfrí hjá liðinu.

 

„Við þurfum að ná upp einbeitingu, sýna svolítinn hroka og setja niður opnu skotin okkar. Við erum með bakið upp við vegg, þurfum bara að mæta í Keflavík tilbúnar að berjast og taka einn leik í einu," sagði Ágúst að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×