Þó svo það séu enn rúmar 45 mínútur í stórleik KR og Snæfells í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla er þegar komin mikil stemning í húsið.
Áhorfendur mættu mjög snemma í Vesturbæinn og hafa margir hverjir verið að gæða sér á hinum gómsæta KR-borgara fyrir leik.
Svo margir voru mættir snemma að erfitt var að finna stæði í nágrenninu klukkutíma fyrir leik.
Stöðugur straumur er af fólki í salinn síðan hann var opnaður og þegar eru um 1.000 manns komnir í íþróttahúsið.
KR-ingar búast við um 2.000 manns á leikinn og má því búast við rosalegri stemningu hér á eftir er liðin leika hreinan úrslitaleik um hvort liðið kemst í úrslitaviðureignina gegn Keflavík.
Þeir sem ekki komast á völlinn geta horft á leikinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.