Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, segir viðskipti sem stunduð voru gagnvart Pálma Haraldssyni og félagi hans FS38 ehf, hafa verið unnin af fullum heilindum og samkvæmt reglum bankans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lárusi en skilanefnd Glitnis hefur stefnt Pálma, Lárusi og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni auk þriggja starfsmanna bankans.
Glitnir vill sex milljarða í skaðabætur fyrir ákvarðanir sem leiddu til gjaldþrots bankans.
Í tilkynningunni segist Lárus ekki telja að stefnan sé byggð á haldbærum rökum. Þá harmar hann að starfsmenn bankans, það er að segja Magnús A. Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, Rósant Már Torfason, fyrrverandi fjármálastjóri, Guðný Sigurðardóttir, fyrrverandi starfsmaður lánasviðs bankans, hafi verið dregin ómaklega inn í málaferlin sem hann telji að verði bæði tímafrek og dýr.
Starfsmennirnir voru sendir í leyfi þegar þeim var stefnt.
Að lokum segist Lárus ekki tjá sig frekar um málið á opinberum vettvangi.