Þingmenn Hreyfingarinnar mótmæla harðlega vinnubrögðum Stöðvar 2 nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga en stöðin hyggst gera upp á milli framboða í Reykjavík með því að bjóða aðeins sumum framboðum að koma fram í umræðuþætti annað kvöld. Þetta kom fram í tilkynningu frá Hreyfingunni sem hún sendi frá sér fyrr í dag.
Þar segir að það sé ljóst að miðillinn sé að bregðast alvarlega lýðræðislegri skyldu sinni með því að gera upp á milli framboða þegar kemur að umfjöllun og aðgengi framboðanna að miðlinum.
Kjósendur eiga rétt á því að ganga til kosninga upplýstir um hvað er í boði og það er hlutverk fjölmiðla að koma þeim upplýsingum hlutlaust til almennings.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um lýðræðislegar skyldur fjölmiðla og þau vinnubrögð sem viðgengust gagnrýnd enda stuðluðu þau að hruninu. Margur myndi ætla að fjölmiðlar hefðu áhuga á að læra af reynslunni.
Þingmenn Hreyfingarinnar skora á Stöð 2 að endurskoða afstöðu sína.