Andrea Della Valle, stjórnarmaður Fiorentina var mjög ósáttur með norska dómaratríóið í 2-1 sigri Bayern Munchen á Fiorentina í gær í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Sigurmark Bayern var greinilegt rangstöðumark og ítalska liðið missti líka mann útaf með rautt spjald á 72. mínútu sem flestum fannst vera of strangur dómur.
„Þetta er mikil synd. Ég sat við hliðina á Platini í stúkunni og hann sagði að leikmaðurinn hafi verið einn og hálfan metra inn fyrir og því greinilega rangstæður," sagði Valle í viðtalið við La Gazette dello Sport og hann vitnaði einnig í Karl-Heinz Rummenigge, forseta Bayern, sem var með þeim í heiðursstúkunni.
„Þeir viðurkenndu báðir að þetta hafi verið rangstöðumark og að Gabbia hefði átt að fá gult spjald í staðinn fyrir rautt," segir Valle.
„Það er algjörlega nauðsynlegt að fjölskylda aðstoðardómarans fari með hann til augnlæknis strax á morgun. Það er ekki hægt að útskýra þessi mistök hans á einhvern annan hátt. Ef þeim þykir vænt um hann þá fara þau með hann til augnlæknisins," sagði Valle fokillur.