Allar líkur eru á því að Sölvi Geir Ottesen missi af báðum leikjum FC Kaupmannahafnar gegn spænska stórliðinu FC Barcelona í Meistaradeild Evrópu.
Sölvi Geir handleggsbrotnaði í leik FCK gegn Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni um helgina. „Því miður er það ekki mikið sem við getum gert," sagði Martin Boesen, læknir FCK.
„Sölvi er framhandleggsbrotinn og venjulega tekur það 5-6 vikur fyrir slíkt brot að jafna sig. Við erum að vinna að því að búa til spelku svo að Sölvi geti haldið sér í formi. Þegar hann getur byrjað aftur að æfa verður að koma í ljós hvenær sársaukinn minnkar," bætti hann við.
Sölvi mun samkvæmt þessu missa af leikjum FCK gegn Panathinaikos í næstu viku og svo báðum leikjunum gegn Barcelona sem fara fram 20. október og 2. nóvember.
Hann mun einnig missa af landsleik Íslands gegn Portúgal í undankeppni EM 2012 þann 12. október.
Þetta er einkar súrt í broti fyrir Sölva sem tryggði FCK þátttökurétt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar með því að skora eina markið í 1-0 sigri gegn norska liðinu Rosenborg í síðari viðureign liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar.