Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að það eina sem standi í vegi fyrir því að Arsenal fari alla leið í Meistaradeildinni sé hugarfarið.
"Hugarfarið er það sem skiptir mestu. Einnig skiptir máli hvernig formið á keppninni er. Þegar útsláttarkeppnin hefst þá verða lykilmenn að vera heilir og ákvarðanir að falla með manni. Við höfum verið að fara langt í þessari keppni og við verðum að trúa því að við getum farið alla leið," sagði Wenger.
Wenger fór með liðið í úrslit árið 2006 er Arsenal tapaði gegn Barcelona. Liðið hefur síðan fallið úr keppni gegn Man. Utd og Barcelona síðustu tvö ár.
Arsenal mætir portúgalska liðinu Braga í keppninni annað kvöld.