Körfubolti

Hildur Sigurðardóttir: Þetta er alveg úrvalsstaða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir, fyrirliði KR.
Hildur Sigurðardóttir, fyrirliði KR. Mynd/Daníel

Hildur Sigurðardóttir, fyrirliði KR, var kát eftir baráttusigur á móti Haukum undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna á Ásvöllum í kvöld. KR vann 79-75 og vantar nú aðeins einn sigur til þess að tryggja sér sæti í lokaúrslitunum.

„Þetta er alveg úrvalsstaða að eiga heimaleik á föstudaginn og vera 2-0 yfir. Við ætlum bara að reyna klára þetta í næsta leik á heimavelli," sagði Hildur. KR-konur unnu fyrsta leikinn með 31 stigi en það var allt annar leikur í gangi í kvöld.

„Maður hugsaði lítið um þessi 30 stig þegar við mættum hingað því þau skiluðu okkur ekki neinu. Þetta var eiginlega alltof stór sigur í fyrsta leik en við vorum meðvitaðar fyrir þennan leik að þetta yrði alveg hörkuleikur og þessi 30 stig myndu ekkert hjálpa okkur í dag," sagði Hildur sem var með 11 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst í kvöld.

Það var mikil barátta út um allan völl og bæði lið lentu í villuvandræðum. Hildur segir sitt lið spila fast en ekki gróft.

„Við erum með fleiri líkamlega sterka leikmenn og þá lítur þetta kannski verra út þegar við erum að brjóta. Þetta er úrslitakeppni og þar er barátta um alla bolta," segir Hildur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×