Skoðun

Áhersla á erlendar nýfjárfestingar

Katrín Júlíusdóttir skrifar
Erlend fjárfesting í atvinnuuppbyggingu er ekki aðeins mikilvæg vegna innspýtingar fjármagns í efnhagslífið heldur fylgir henni gjarnan ný þekking, tækni og tengsl við markaði. Hér á landi hafa erlendar fjárfestingar því miður verið bæði fátíðar og einhæfar enda hafa íslensk stjórnvöld aldrei mótað markvissa opinbera stefnu í þeim efnum. Úr því verður bætt.

Fjárfestingarstofan, verkefni iðnaðarráðuneytisins, fékk ráðgjafarfyrirtækið PriceWaterhouseCoopers í Belgíu til að vinna ítarlega úttekt á því hvernig staðið er að öflun erlendra fjárfestinga á Íslandi. Skortur á stefnu stjórnvalda og stuðningi við markaðssetningu Íslands erlendis sem fjárfestingarkosts er talið meðal helstu hindrana á undanförnum áratugum. Enda hafa erlendar fjárfestingar verið einhæfar og frumkvæðið komið frá hinum erlendum framkvæmdaaðilum í kjölfar viðræðna við orkufyrirtækin.

Í ljósi þess hve mikilvægar fjölbreyttar erlendar fjárfestingar eru fyrir endurreisn efnahagslífsins, rammalöggjafar um ívilnanir vegna nýfjárfestinga, þeirra sóknarfæra sem felast í samstarfi Fjárfestingarstofu og nýrrar Íslandsstofu og skýrslu PWC hef ég skipað nefnd sérfræðinga úr atvinnulífinu til að vinna drög að stefnu stjórnvalda gagnvart erlendum fjárfestingum. Nefndin fer yfir skýrslu PWC, stefnumótunina að baki Íslandsstofu og þau verkefni sem Fjárfestingarstofa hefur verið að vinna á undanförnum árum og leggur fram tillögur um áherslusvið og breytt vinnubrögð stjórnvalda og stofnana. Markmiðið er að auka erlendar fjárfestingar með því að hafa frumkvæði að kynningum á Íslandi gagnvart völdum atvinnugreinum og svæðum auk þess að geta unnið markvissar úr þeim erindum sem berast frá áhugasömum fjárfestum.

Á sama tíma eru það á ábyrgð stjórnmálamanna að taka höndum saman um að endurreisa traust á Íslandi á alþjóðamörkuðum, t.d. með lausn á Icesavedeilunni, og skapa þannig forsendur fyrir fjármögnun orkuframkvæmda á eðlilegum kjörum. Þá þarf að liggja fyrir hvert stefnt skuli í gjaldeyrismálum þjóðarinnar enda þekkja frumkvöðlar sem leitað hafa erlendra fjárfesta af eigin raun að sveiflukennd örmynt er ein stærsta hindrunin í vegi nýfjárfestinga.

 

 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×