Brasilíumaðurinn Ronaldinho segist ætla að vera áfram í herbúðum AC Milan en samningur hans við félagið rennur út í lok leiktíðar.
Mikið hefur verið rætt um framtíð hans en hinn þrítugi Ronaldinho segir að ekkert sé hæft í þeim sögusögnum að hann sé á leið frá félaginu.
„Framtíðin mín? Ég segi nú í eitt skipti fyrir öll að ég ætla ekki að fara frá Milan," sagði Ronaldinho í samtali við ítalska fjölmiðla en hann hefur til að mynda verið orðaður við LA Galaxy í Bandaríkjunum.
„Sá árangur sem ég get náð með Milan getur hjálpað mér að uppfylla þann draum minn að spila með landsliðinu á HM í Brasilíu árið 2014."
